Skoðun

Til varnar jafnréttissinna

Oddný Harðardóttir skrifar
Á árunum eftir bankahrunið skaut upp kollinum hugtakið verðleikaþjóðfélag í þjóðmálaumræðunni. Með hugtakinu er vísað til þess að við úthlutun embætta og annarra starfa skuli stuðst við verðleika umsækjenda, hæfni þeirra, reynslu og menntun og að þessir verðleikar skuli metnir á faglegan og óvilhallan hátt af þar til bæru fólki.

Verðleikaþjóðfélag er andstæða kunningja- og klíkuþjóðfélagsins þar sem flokkshollusta, kunningskapur, ættir og klíkuskapur ræður því hverjir ráðnir eru til verka. Þar er engin trygging fyrir því að verðleikar og málefnaleg sjónarmið ráði för.

Margir hafa á það bent að líta megi á það bæði sem veikleika og styrkleika að Ísland sé lítið og einsleitt samfélag þar sem innbyrðis tengsl eru mikil og boðleiðir stuttar, en jafnframt að einmitt þetta hafi verið rót kreppunnar.

Einhver ötulasti baráttumaður síðari áratuga gegn spillingu, kynjamisrétti, ójöfnuði og kauðskum klíkustjórnmálum er Jóhanna Sigurðardóttir sem tók að sér að leiða þjóðina út úr þeim djúpstæða vanda sem íslenska klíkuveldið hafði bakað þjóðinni.

Barátta Jóhönnu er vel þekkt. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, gat um þessa baráttu Jóhönnu þegar hún spurðist fyrir um stöðu þess kærumáls sem nú fer hátt í fjölmiðlum eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Fyrir rétt um ári síðan hafði Jóhanna gert upp við sig að mál vildi hún ekki höfða til ógildingar úrskurði kærunefndar jafnréttismála þótt vísir lögfræðingar og ráðgjafar teldu miklar líkur á að úrskurði kærunefndar yrði hnekkt í slíku máli. Jóhanna tók málið afar nærri sér enda mátti hún vera í góðri trú um að málefnalega og faglega hefði verið staðið að mati á 21 umsókn um starf skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Af fimm manna úrvalshópi hafnaði sá er starfið fékk í efsta sæti en málshöfðandi í kærumálinu í því fimmta. Hefði það verið rétt af Jóhönnu að standa í málaferlum við kynsystur sína um álitamál sem snerti jafnrétti?

Enda svaraði Jóhanna Þorgerði Katrínu svo til á Alþingi: „Ákvörðun mín var sú að fara ekki með málið fyrir dómstóla heldur að reyna að leita sátta jafnvel þó að ríkislögmaður teldi góðar líkur á að ég mundi vinna það mál fyrir dómstólum."

Jóhanna Sigurðardóttir nýtti með öðrum orðum ekki þau réttarúrræði sem hún hafði til þess að reyna að hnekkja úrskurðinum. Segja má að þá þegar hafi hún viðurkennt úrskurð kærunefndar jafnréttismála og viljað beygja sig undir hann með sáttaumleitunum við umsækjandann.

En sátt var ekki í boði og umsækjandinn höfðaði mál sem nú hefur verið leitt til lykta í héraðsdómi. Og hver er niðurstaðan? Bindandi úrskurður kærunefndar jafnréttismála sem Jóhanna nánast að segja framkallaði sjálf með því að höfða ekki ógildingarmál.

En fleira kemur til. Í dóminum er kröfu um skaðabætur hafnað en fallist á sömu fjárhæð miskabóta og forsætisráðuneytið hafði þegar boðið stefnanda í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála.

Þá er það jafnframt niðurstaða dómsins að ekki verði fullyrt að stefnandi hafi átt að fá embættið og er skaðabótakröfu stefnanda því alfarið hafnað.

Í þessu ljósi er því hægt að velta vöngum yfir því hvað hefði gerst ef stefnandi hefði hlotið embættið. Hefðu aðrir sem urðu ofar í mati á umsækjendum beðið um úrskurð kærunefndar jafnréttismála? Hver hefði niðurstaðan orðið þá?

Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur svo sannarlega margt áunnist í jafnréttismálum. Svo mjög að Ísland er til fyrirmyndar á því sviði. Kynjuð fjárlagagerð og hagstjórn hefur verið innleidd við gerð fjárlaga til að tryggja jafna dreifingu opinberra fjármuna óháð kyni. Undir forystu Jóhönnu var málaflokkur jafnréttismála fluttur undir forsætisráðuneytið, búið er að ljúka við gerð jafnréttisstaðla til að ráðast með markvissum hætti gegn kynjabundnum launamun, unnið hefur verið að aðgerðaáætlun gegn mansali, kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, austurríska leiðin til varnar þolendum heimilisofbeldis hefur verið lögleidd og unnið er að eflingu Jafnréttisstofu. Senn taka gildi lög sem kveða á um að lágmark 40 prósent stjórnenda fyrirtækja og sjóða séu konur. Helmingur ráðuneytisstjóra eru konur og meirihluti ráðherra er það nú sem stendur.

Ofangreindar samfélagslegar breytingar og sigrar verða ekki til af sjálfu sér. Jóhanna Sigurðardóttir hefur í áratugi barist fyrir auknu jafnrétti kynjanna og gerir enn. Hún hefur einnig barist fyrir heilbrigðri stjórnsýslu og verðleikaþjóðfélaginu. Hún hefur engar tryggingar frekar en aðrir fyrir því að þessi tvö markmið geti ekki rekist á endrum og sinnum. Það hefur hún sjálf reynt.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×