Fasteignaverð í Bretlandi heldur áfram að lækka samkvæmt tölum sem breska hagstofan birti í morgun. Lækkunin í júlímánuði er sú hraðasta síðan 2009 en hún var 0,7 prósent í mánuðinum. Undanfarið ár hefur fasteignaverð á landsvísu í Bretlandi lækkað um 2,6 prósent.
Fasteignamarkaðurinn í Bretlandi hefur átt undir högg að sækja í alþjóðlega efnahagssamdrættinum en samkvæmt upplýsingum frá hagstofunni, sem The Guardian vitnar til í umfjöllun sinni í dag, er það ekki síst mikið atvinnuleysi og minna ráðstöfunarfé almennings sem ræður því að verðið hefur haldið áfram að lækka frá mánuði til mánaðar. Lækkunin frá árinu 2007 nemur tæplega 14 prósentum.

