Skoðun

Burt af hættusvæðinu

Árni Páll Árnason skrifar
Eftir efnahagshrun og langvinnt samdráttarskeið sjáum við sprota nýs vaxtar gægjast fram. Um allan hinn vestræna heim er enn mikil óvissa um efnahagsþróun. Stjórnvöld evruríkja þurfa að finna trúverðuga lausn á skuldavanda þeirra evruríkja sem skuldsettust eru. Lausnin mun til skemmri tíma fela í sér einhvers konar endurfjármögnum og mögulega endurmat á skuldum til að gera skuldugustu ríkjunum kleift að standa í skilum, án þess að leggja með því óbærilegar byrðar á þjóðirnar sem að baki standa. Til lengri tíma munu evruríkin þróa agaðri umgjörð um ríkisfjármál, til að tryggja að einstök ríki geti ekki skuldsett sig úr hófi og grafið þannig undan efnahagslegum stöðugleika á svæðinu öllu. Í Bandaríkjunum glíma menn við stjórnarfarslega lömun, þar sem öfgamenn úr hópi repúblíkana berjast af trúarlegri sannfæringu gegn öllum hækkunum á sköttum og eru tilbúnir að beita öllum brögðum í þeirri viðureign.

Ísland í variÞessi staða hefur áhrif á Ísland. Neikvæð efnahagsþróun á mikilvægustu útflutningsmörkuðum okkar hefur áhrif á okkur. Mikilvægustu útflutningsafurðir okkar eru allar mjög viðkvæmar fyrir kaupmáttarþróun almennings. Ef harðnar á dalnum neitar fólk sér frekar um fisk og kaupir ódýrari mat og frestar kaupum á bílum, ísskápum og öðrum vörum sem ál er notað til framleiðslu á. Fyrir vikið getur ný kreppa í Evrópu haft alvarleg áhrif á útflutningstekjur okkar.

Almenn vantrú á getu ríkja til að standa við skuldbindingar sínar hefur líka áhrif á Ísland. Við vorum í hópi þeirra ríkja sem hvað mest vantrú var á, allt fram á þetta ár. Okkur hefur nú tekist að auka tiltrú á íslenskt efnahagslíf og hagstjórn, eins og sést best í þeim góðu kjörum sem fengust í alþjóðlegu skuldabréfaútboði ríkisins í júnímánuði. Ekkert er sjálfgefið við þann árangur. Hann byggir á skynsamlegri efnahagsstefnu og aga í ríkisútgjöldum.

Við þessar aðstæður skiptir öllu að standa vörð um þann mikla árangur sem þegar hefur náðst í efnahagsstjórninni frá hruni. Halli á ríkisútgjöldum er kominn úr 200 milljörðum í um 50 milljarða. Við förum nærri því að ná jöfnuði í ríkisútgjöldum, án tillits til fjármagnskostnaðar, á yfirstandandi ári og höfum stefnt að því að ná jöfnuði á ríkisútgjöldum á árinu 2013. Það sem skilur á milli Íslands og annarra landa sem átt hafa við erfiðleika að stríða í yfirstandandi efnahagskreppu er sú staðreynd að Ísland hefur rekið trúverðuga áætlun um jafnvægi í ríkisbúskap og staðið við þau metnaðarfullu markmið sem þar hafa verið sett. Þessi áætlun var mótuð út frá íslenskum hagsmunum og þörfum, en unnin og þróuð í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er mjög mikilvægt að við sýnum áfram getu og dug til að reka ríkissjóð í jafnvægi, þótt samstarf okkar við AGS taki breytingum. Stefnubreyting nú væri skilaboð um að Íslendingum væri fyrirmunað að sýna þann sjálfsaga í ríkisrekstri sem nauðsynlegur er til að komast af hættusvæði ofskuldsetningar og lítils hagvaxtar og þyrftu til langframa á utanaðkomandi aðstoð að halda til að hafa skikk á innlendri hagstjórn.

Leiðin framFramundan er glíma við fjárlög fyrir árin 2012 og 2013. Ljóst er að enn þarf að skera niður í ríkisrekstri til að koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Ekki er auðvelt að auka skattlagningu og víða komið að þolmörkum þar. Ekki er auðvelt að minnka frekar fjárveitingar til óbreytts ríkisrekstrar. Framundan er því að taka annars konar ákvarðanir – ákvarðanir um að breyta umgjörð ríkisrekstrar og því þjónustuframboði sem ríkið ábyrgist og stendur skil á úr sameiginlegum sjóðum. Við þurfum að hugsa upp á nýtt hvert umfang ríkisrekstrar á að vera og skilgreina þrengra þau grundvallarverkefni sem við viljum að ríkið sinni. Dæmi eru um að stofnanir fái framlög á fjárlögum, þótt þær sinni ekki lögbundinni grundvallarþjónustu ríkisins og aðrar stofnanir sinni sambærilegri þjónustu án nokkurs ríkisframlags. Getum við náð utan um þetta?

Við þurfum líka að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Mörg ríki í skuldavanda glíma líka við skort á samkeppnishæfni og heilbrigðum framtíðarhorfum. Við höfum forskot þar, en getum gert enn betur. Við þurfum sjálfbæra orkunýtingu í sátt við náttúru og í takt við hagsveiflu. Landsvirkjun hefur nýlega sett fram athyglisverðar og metnaðarfullar hugmyndir í þessu efni. Markmiðið hlýtur að vera að orkuauðlindir skili hámarksarði, en séu ekki nýttar til að ná skammtímamarkmiðum um uppbyggingu á byggðapólitískum forsendum. Sama grundvallarviðmið hlýtur að ráða um framtíðarþróun sjávarútvegsins. Hann þarf að reka með arðsemissjónarmið að leiðarljósi, en ætla honum jafnframt að standa undir háu auðlindagjaldi í sameiginlega sjóði. Arðbært og samkeppnishæft atvinnulíf er nauðsynleg forsenda opins hagkerfis og afnáms gjaldeyrishafta.

Við höfum náð miklum árangri og meiri en mörg önnur lönd geta státað af. Framundan er baráttan um að tryggja þann árangur í sessi. Okkar bíður að sanna að við ráðum við það verkefni sem mörg önnur ríki eru nú að heykjast á – að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífs, laga útgjöld að tekjum og takast á við sérhagsmuni og kyrrstöðuöfl í hverri grein. Er það á okkar færi?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×