Innlent

Belgingur fylgist með hamfarasvæðum

ólafur Björgunarsveitir víða um heim geta bætt áætlanagerð sína með veðurspágögnum Belgings.Fréttablaðið/GVA
ólafur Björgunarsveitir víða um heim geta bætt áætlanagerð sína með veðurspágögnum Belgings.Fréttablaðið/GVA
Íslenski veðurspávefurinn Belgingur hefur síðastliðna viku reiknað veðurspár í þéttu neti fyrir átakasvæði í Tripólí, höfuðborg Líbíu, og hamfarasvæðið við Fukushima-kjarnorkuverið í Japan.

Veðurspárnar eru reiknaðar í nýju veðurspákerfi sem nefnist SARWeather (Search And Rescue Weather) og lýsa staðbundnu veðri af mikilli nákvæmni.

Þær eru unnar í samvinnu við ýmsar alþjóðlegar stofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar, og nýtast björgunarsveitum á svæðunum við áætlanagerð. Ef illa fer í Fukushima má nýta gögnin til að áætla dreifingu geislavirkni í næsta nágrenni kjarnorkuversins.

Framkvæmdastjórinn Ólafur Rögnvaldsson segir spákerfi Belgings hafa verið í þróað í nánu samstarfi við Almannavarnir og Slysavarnafélagið Landsbjörgu frá 2007.

„Þegar Gísli Ólafsson, liðsstjóri íslensku rústabjörgunarsveitarinnar á Haítí, bað okkur um veðurspá fyrir svæðið, þá tók það okkur innan við tvo tíma að vinna hana. Þá fyrst áttuðum við okkur á því hversu öflugt tæki við vorum með í höndunum,“ segir Ólafur.

Við spágerðina notar Belgingur opin gögn og hugbúnað frá Bandarísku veðurstofunni og bandaríska háskólasamfélaginu. Annað nýnæmi SARWeather-spákerfisins er að nauðsynlegur tölvubúnaður er leigður af tölvuskýi GreenQloud í Hafnarfirði. Með því móti er nægt reikniafl alltaf tryggt.

Reiknistofa í veðurfræði og GreenQloud verða á meðal þátttakenda í upplýsingatæknimessu sem hefst á morgun.

- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×