Innlent

Stuðlað að nýliðun með leigukvótaþingi

Notast verður við blandaða leið aflahlutdeildarkerfis og svokallaðs pottakerfis við stjórn fiskveiða, samkvæmt áformum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í pottum verður tiltekið hlutfall heildaraflamarksins og þeir tengdir byggðarlögum. Í gegnum þá er ætlunin að koma á fót virkum kvótaleigumarkaði sem á að stuðla að nýliðun í sjávarútvegi.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að frumvarpi til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Sex þingmenn stjórnarflokkanna hafa komið að verkinu. Stefnt var að því að frumvarpið yrði tilbúið fyrir síðustu mánaðamót en vinnan hefur dregist. Útlínur liggja fyrir en enn á eftir að ganga frá nokkrum þáttum.

Við upphaf kerfisbreytinga verður heildaraflamarki skipt á milli núverandi kvótahafa og potta. Hlutdeild potta í heildaraflamarkinu á svo að vaxa í þrepum á tilteknum árafjölda á kostnað hlutdeildar kvótahafa. Hlutdeildir og árafjöldi hafa ekki verið ákveðin en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru helstar líkur á að upphafshlutdeild potta verði á bilinu átta til tíu prósent og vaxi í fimmtán prósent á tíu til fimmtán árum.

Með þessu er vonast til að hægt verði að sætta sjónarmið kvótahafa og þeirra sem vilja innkalla allar aflaheimildir.

Um átta prósent heildaraflans standa nú þegar utan aflamarkskerfisins. Er þar um að ræða byggðakvóta, ívilnanir, strandveiðar og fleira.

Breytingar á kerfinu taka nú aðeins til botnfisks en ekki uppsjávartegunda.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins verður framsal aflaheimilda takmarkað mjög frá því sem nú er. Ætlunin er að það fari fram með gagnsæjum hætti með opinberri umsjón. Gildandi kerfi hefur lengi verið þyrnir í augum margra og hafa útgerðarmenn lýst sig reiðubúna til viðræðna um breytingar.

Ekki eru uppi áform um að hækka auðlindagjald á útgerðina enda talið að aukin skattheimta dragi úr svigrúmi greinarinnar til fjárfestinga. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×