Knattspyrnustjórinn José Mourinho hjá Inter verður vitanlega í sviðsljósinu í kvöld þegar Chelsea kemur í heimsókn á San Siro-leikvanginn í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Mourinho stýrði sem kunngt er Chelsea á árunum 2004-2007 en ítrekaði á blaðamannafundi í gær að þó svo að hann þekkti Lundúnaliðið út í gegn þá myndi það ekkert endilega gera hlutina léttari.
„Sú staðreynd að ég viti bókstaflega allt sem er hægt að vita um Chelsea gerir þetta verkefni ekkert endilega léttara. Fortíð mín hjá Chelsea skiptir engu máli núna. Ég þarf enn að sjá til þess að lið mitt spili rétta leikskipulagið til þess að ná árangri.
Ég mætti Porto með Chelsea ári eftir að ég fór þaðan og það breytti litlu að ég vissi allt um Porto. Þetta voru tveir erfiðir leikir þar sem Chelsea vann einn og Porto vann einn.
Ég veit líka að Carlo Ancelotti [stjóri Chelsea] þekki Inter og ítalska boltann mjög vel. Fyrri leikurinn mun annars ráða mjög miklu um hvernig þetta spilast en það ræðst vitanlega hvaða lið fer áfram í seinni leiknum og það kæmi mér ekki á óvart ef að grípa þyrfti til framlengingar eftir seinni leikinn," sagði Mourinho.