Samkvæmt fregnum frá Ítalíu þá er þýski framherjinn Kevin Kuranyi á leið til Juventus frá Schalke en ítalska félagið hefur verið lengi á eftir leikmanninum.
Þýska íþróttablaðið Kicker segir að Juventus sé búið að bjóða Kuranyi fjögurra ára samning sem myndi færa honum 15 milljónir evra.
„Umboðsmennirnir mínir eru að vinna í málinu. Ég get ekkert annað sagt en að ég hef ekki tekið neina ákvörðun með framtíð mína. Það er allt opið," sagði Kuranyi.
Samningur framherjans við Schalke rennur út í sumar. Hann hefur einnig verið orðaður við Dynamo Moskvu og Genoa.