Fótbolti

Hiddink: Áttum að skora annað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink, stjóri Chelsea.
Guus Hiddink, stjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Guus Hiddink, knattspyrnustjóri Chelsea, var ánægður með 1-0 sigur sinna manna á Juventus í kvöld en fannst hann helst til of naumur.

„Við byrjuðum mjög vel, pressuðum mikið á þá fyrstu 20 mínúturnar og skoruðum mjög gott mark," sagði Hiddink.

„En við hefðum átt að skora eitt til viðbótar til að gera lífið auðveldara fyrir okkur. Við áttum fremur erfitt uppdráttar undir lok leiksins. Við þurfum að vinna betur í því að hafa betri stjórn á svona jöfnum leikjum."

Frank Lampard var sérstaklega ánægður með að halda hreinu í kvöld.

„Við hefðum getað skorað fleiri mörk þar sem við sköpuðum fleiri færi. En það var mjög mikilvægt að halda markinu hreinu á heimavelli," sagði Lampard.

„Juve er með afar sterkt lið. Við erum ekki lengur í riðlakeppninni og sama hvaða liði maður mætir á þessu stigi keppninnar - andstæðingurinn mun alltaf valda usla."

„Þetta var svo sem ekki okkar besta frammistaða þegar á heildina er litið en úrslitin engu að síður afar jákvæð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×