Fótbolti

Mourinho: Ég gerði United að besta liðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jose Mourinho er byrjaður að kynda upp fyrir stórleik Inter og Man. Utd
Jose Mourinho er byrjaður að kynda upp fyrir stórleik Inter og Man. Utd Nordic photos/getty images

Hinn yfirlýsingaglaði Portúgali, Jose Mourinho, verður seint sakaður um minnimáttarkennd og hann hefur nú tekið sína sneið af velgengisköku Man. Utd.

Mourinho heldur því nefnilega fram að United hafi orðið að því liði sem það er í dag út af honum.

„Þegar ég var í Englandi þá var Chelsea besta liðið á árunum 2004-2006. Þess vegna vann Chelsea tvo titla í röð. Þá uppgötvaði Man. Utd að það þyrfti að bæta sig til þess að vinna titilinn. Það gerði liðið síðan á þriðja ári mínu í Englandi og það vann síðan Meistaradeildina," sagði Mourinho hógvær að venju.

„Þetta gengi hefur fært liðinu afar mikið sjálfstraust. United er klárlega mun betra lið núna en það var þegar ég var í Englandi."

Lið Mourinhos, Inter, mætir einmitt Man. Utd í Meistaradeildinni á morgun og það verður áhugaverður slagur.

„Þessi rimma er mín stærsta áskorun síðan ég kom til Ítalíu. Meistaradeildin skiptir Inter gríðarlega miklu máli enda hefur félagið ekki unnið þessa keppni í tæplega 50 ár. Þetta verður stríð á milli okkar Sir Alex meðan á leikjunum stendur en eftir leik erum við aftur vinir og munum eyða góðum tíma saman," sagði Mourinho en kært er á milli hans og Fergusons.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×