Erlent

Kannað hvort flóðvatn hafi valdið smiti

Guðjón Helgason skrifar

Evrópusambandið hefur bannað útflutning á fersku kjöti, lifandi skepnum og mjólkurvörum frá öllu meginlandi Bretlands tímabundið, vegna gin- og klaufaveiki sem greindist á bóndabæ á Suður-Englandi í síðustu viku. Breskir sérfræðingar rannsaka nú hvort flóðum sumarsins sé um að kenna að smit hafi borist í skepnurnar.

Gin- og klaufaveiki greindist í nautgripum á býli í Surrey á föstudaginn. Búið var þegar einangrað og gripum slátrað á búinu og tveimur til viðbótar í nágrenninu til öryggis. Á blaðamannafundi í Brussel í dag hrósaði Philip Tod, talsmaður Evrópusambandsins, breskum stjórnvöldum fyrir snögg viðbrögð við smitinu um leið og hann greindi frá banninum sem væri sett í samvinnu við Breta sem áður höfðu bannað allan flutning á búfénaði.

Tod sagði litið á Stóra-Bretland sem mikið hættusvæði og á því væri ákvörðunin byggð. Þar með mætti ekki flytja lifandi dýr, ferskar kjötvörur og mjólkurafurðir þaðan til ríkja ESB. Bannið er sett á til að koma í veg fyrir frekara smit. Farið verði yfir málið aftur á miðvikudaginn og þá ákveðið hvort því verið aflétt eða ekki.

Ekki er vitað með vissu hvernig dýrin hafi smitast en grunur beinst að rannsóknarmiðstöð þar sem dýrasjúkdómar eru rannasakaðir og bóluefni framleitt. Þar hafi veiran verið notuð við rannsóknir hjá ríkisrekinni stofnun og einkareknu lyfjafyrirtæki. Yfirmenn beggja neita því að smit hafi borist frá þeim, fyllsta öryggis hafi verið gætt.

Bresk heilbrigðisyfirvöld kanna nú hvort veiran hafi borist á nautgripabúið með flóðvatni þegar mest flæddi á Englandi fyrir nokkrum vikum - og þá jafnvel frá rannsóknarstofunni. Það hefur þó ekki fengist staðfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×