Erlent

Bush fundar með demókrötum

Jónas Haraldsson skrifar
Bush sést hér á fréttamannafundi með Nancy Pelosi í gærdag.
Bush sést hér á fréttamannafundi með Nancy Pelosi í gærdag. MYND/AFP
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og leiðtogar demókrata í bandaríska þinginu hafa heitið því að komast að niðurstöðu varðandi aukafjárveitingu til hersins.

Bush fundaði með leiðtogum demókrata í Hvíta húsinu daginn eftir að hann hafði beitt neitunarvaldi gegn frumvarpi þeirra. Það hefði bundið fjárveitingu til hersins við skilyrði um heimkomu hermanna. Demókratar reyndu að ná nógu stórum meirihluta í annarri atkvæðagreiðslu í gærkvöldi til þess að ógilda neitun Bush en til þess hefði þurft tvo þriðju hluta atkvæða. 222 samþykktu en 203 voru á móti og því stendur neitunin. Báðir aðilar munu því þurfa að gefa eftir ef niðurstaða á að nást í málinu.

Demókratar hafa viðrað þá hugmynd að láta skilyrðin snúast um frammistöðu stjórnvalda í Írak frekar en dagsetningu á heimkomu hermannanna. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins, sagði að Bush myndi ekki fá fjárveitinguna án skilyrða.

Davið Petraeus, aðalhershöfðingi Bandaríkjanna í Írak, hefur sagt að ef hermönnum í Írak verði fækkað eða fjármunum ekki veitt fljótlega til hersins geti það leitt til aukins ofbeldis í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×