Erlent

10 ár frá valdatöku Blairs

Guðjón Helgason skrifar

Áratugur er í dag frá því að Tony Blair tók við embætti forsætisráðherra í Bretlandi. Hann er þaulsætnasti leiðtogi Verkamannaflokksins breska en á þó langt í land með að slá met þess forsætisráðherra Breta sem lengst hefur setið í Downing-stræti 10.

Blair er níundi í röð þeirra forsætisráðherra sem hafa setið lengst í embætti þar í Bretlandi. Hann er sá forsætisráðherra Verkamannaflokksins sem hefur lengst verið við völd og sá eini sem hefur leitt flokkinn til sigurs í þremur kosningum í röð.

Blair og Margret Thatcher, fyrrverandi leiðtogi Íhaldsflokksins, eru þau einu sem hafa setið við völd í minnst 10 ár á síðustu 100 árum. Thatcher bjó í Downing-stræti 10 í 11 og 1/2 ár.

Metið á hins vegar Sir Robert Walpole, sem almennt er talinn fyrsti forsætisráðherra Breta. Hann var við völd í 21 ár frá 1721 til 1742.

Blair boðaðið það í fyrra að hann yrði horfinn úr embætti á þessu ári. Standi hann við það nær hann hvorki að slá met Thatcher né Walpole. Brotthvarf Blairs hefur þó ekki verið dagsett nákvæmlega en breskir fjölmiðlar hafa síðust viku leitt að því líkum að hann verði farinn úr embætti í þessum mánuði, líklega rétt fyrir eða skömmu eftir sveitastjórnarkosningarnar í þessari viku.

Blair sagði í morgunsjónvarpinu á ITV í morgun að hann ætlaði að gera nánari grein fyrir áformum sínum í vikunni. Þegar Blair hefur vikið úr embætti tekur við 7 vikna ferli þar sem Verkamannaflokkurinn velur næsta leiðtoga. Líklegast er talið að Gordon Brown, fjármálaráðherra, verði fyrir valinu en það er þó ekki fullvíst og fer eftir því hvort þungaviktarmenn í flokknum ákveði að fara gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×