Erlent

Ísraelsk stjórnvöld gagnrýnd

Guðjón Helgason skrifar

Búist er við að stuðningsmenn jafnt sem andstæðingar krefjist afsagnar Ehuds Olmerts, forsætisráðherra Ísraels, eftir að skýrsla rannsóknarnefndar um stríðsrekstur Ísraela í Líbanon í fyrra verður birt í dag. Olmert og Amir Peretz, varnarmálaráðherra, eru harðlega gagnrýndir fyrir mistök í starfi.

Um er að ræða bráðabirgðaskýrslu sérstakrar nefndar sem ríkisstjórnin skipaði til að fara yfir aðgerðir hers í átökunum við Hizbollah-liða í Líbanon í fyrra. Nefndin hefur einnig farið yfir ákvarðanatökuferli innan ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt heimildum ísraelskra fjölmiðla verður skýrslan áfellisdómur á framkvæmdina og aðgerðir ríkisstjórnar Olmerts. Talið er að forsætisráðherrann verði jafnvel víttur fyrir það að hafa í fljótfæri og vanhugsun lagt út í stríð. Ekki hafi verið búið að skilgreina markmið nægilega vel og aðgerðin því dæmd til að mistakast.

Um 1.200 Líbanar týndu lífi í átökunum, flestir þeirra almennir borgarar. 160 Ísraelar féllu, langflestir þeirra hermenn.

Það er talið fullvíst að Amir Peretz, varnarmálaráðherra og leiðtogi verkamannaflokksins, verði ávíttur fyrir mistök í starfi. Reynsluleysi hans hafi skinið í gegn. Líklegt er talið að dagar hans á ráðherrastóli verði taldir eftir að skýrslan hefur verið birt.

Talið er að Olmert svari skýrslunni þannig að öll ríkisstjórnin hafi staðið að ákvörðuninni að fara í stríð. Hann ætli að fara að öllum tillögum nefndarinnar og koma þeim til framkvæmda.

Mótmælafundur hefur verið boðaður í Tel Aviv á morgun þar sem búist er við að afsagnar Olmerts verði krafist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×