Erlent

Kona giftist fjórum konum

MYND/AFP
Nígerísk lesbía frá ríkinu Kano, sem giftist fjórum konum um síðustu helgi, hefur farið í felur til þess að forðast íslömsku lögregluna. Samkvæmt íslömskum Sharia-lögum, sem voru sett á fyrir sjö árum, er samkynhneigð og hjónabönd fólks af sama kyni bönnuð. Bæði brotin eru talin mjög alvarleg. Til að mynda var leikhúsið þar sem brúðkaupið fór fram brotið niður.

Konurnar fimm voru allar fæddar múslimar. Þess vegna segja embættismenn í Kano að lögin eigi við um þær. Þær eru jafnframt allar leikkonur í hinum gróskumikla nígeríska kvikmyndaiðnaði. Nígería hefur stundum verið nefnd Nollywood vegna þess mikla magns af kvikmyndum sem þar er framleitt.

Í norðurhluta Nígeríu er annars vegar lögreglan og hins vegar sjálfboðaliðasveitir sem framfylgja sharía-lögum. Yfirmaður sjálfboðaliðasveitanna sagði að ef kona er fundin sek um að vera lesbía eigi hún yfir höfði sér eina af tveimur refsingum. Hafi hún verið gift verði hún grýtt til dauða en ef hún hafi verið einhleyp verði hún lamin með staf.

Nígeríska þingið er að íhuga að herða lög gagnvart samkynhneigðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×