Erlent

„Noregur úr NATO og NATO úr þessum heimi“

Þetta voru slagorð mótmælenda gegn NATO og stríðinu í Afghanistan á götum Óslóborgar í gærkvöldi. Óeirðalögreglan beitti á endanum táragasi á hópinn, og þurftu fréttamaður okkar og utanríkisráðherra að forða sér undan gasinu sem lagði um nágrenni ráðhússins.

Norge ut af NATO, NATO ut af verden, hrópuðu mótmælendurnir. Það myndi útleggjast sem Noreg úr NATO og NATO út úr þessum heimi! Hundruð grímuklæddra mótmælenda fylktu liði í grennd við ráðhús borgarinnar, þar sem utanríkisráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins héldu til snæðings.

Óeirðalögreglan norska sló skjaldborg um húsið og reyndi að hemja hópinn, en þegar nokkrir mótmælendanna gerðu tilraun til þess að rjúfa öryggisgirðingu greip lögreglan til táragass til að tvístra hópnum.

Að sögn Bryndísar Hólm, fréttamanns okkar í Osló, þurftu þær Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, að forða sér undan táragasskýinu til að geta rætt saman ógrátandi.

Norska lögreglan réðist að endingu til inngöngu í húsnæði samtaka sem nefna sig Blitz, en margir mótmælendanna tilheyra þeim félagsskap. Þar gerði hún upptækar fjölmargar smásprengjur og grjót, sem augljóslega stóð til að nota við frekari mótmæli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×