Erlent

Sarko og Sego komin áfram

Samkvæmt fyrstu tölum úr frönsku forsetakosningunum eru þau Nicolas Sarkozy og Segolene Royal komin áfram í síðari umferðina sem fram fer 6. maí næstkomanid. Sarkozy fékk 30,5 prósent atkvæða en Royal 24,3 prósent. Francois Bayrou fékk rúm átján prósent og Jean Marie Le Pen tólf prósent. 84 prósent mættu á kjörstað sem er einhver mesta kjörsókn um árabil.

Kjörstaðir voru opnaðir stundvíslega klukkan átta í morgun en íbúar franskra yfirráðasvæða erlendis kusu hins vegar í gær. Frá fyrstu mínútu var ljóst að þorri kjósenda ætlaði að neyta atkvæðisréttar síns því strax klukkan tíu hafði þriðjungur þeirra greitt atkvæði, tíu prósentum fleiri en í fyrri umferð kosninganna 2002. Í allan dag var svo kjörsóknin jöfn og góð.

Á meðal þeirra fyrstu sem mættu í kjördeild sína í morgun var Nicolas Sarkozy, frambjóðandi hægri manna, en hann greiddi atkvæði í Neuilly-sur-Seine í útjaðri Parísar.

Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista var brosmild þegar hún gekk út úr kjörklefanum í heimabæ sínum Melle og ekki var annað að sjá en að miðjumaðurinn Francois Bayrou og hinn umdeildi Jean Marie Le Pen væru nokkuð borubrattir þar sem þeir greiddu atkvæði á sínum kjörstöðum. Báðir hafa þeir eflaust vonast til að fá bróðurpartinn af atkvæðum óákveðinna en fyrir helgi virtist þriðjungur kjósenda eiga enn eftir að gera upp hug sinn. Miðað við svörin á kjörstöðum í morgun er það hins vegar ekki sjálfgefið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×