Erlent

100 lögreglumenn handteknir í Mexíkó

Hermenn í Mexíkó handtóku í kvöld fleiri en 100 lögreglumenn í aðgerðum sem miða að því ráða niðurlögum voldugra eiturlyfjahringja og lögreglumanna sem eru á launaskrá hjá þeim. Herinn gerði áhlaup á lögreglustöðvar víðsvegar í norðurhluta Mexíkó og fylkinu Nuevo Leon. Þar hafa margar aftökur, sem tengdar eru valdabaráttu eiturlyfjahringja, átt sér stað á síðastliðnu ári.

Lögreglumennirnir sem voru handteknir voru síðan keyrðir í rútum í gæsluvarðhald. Forseti Mexíkó, Felipe Calderon, sendi þúsundir hermanna í borgir nálægt landamærunum við Bandaríkin til þess að reyna að koma höggi á eiturlyfjasmygl á svæðinu. Um 2.000 manns létu lífið í átökum tengdum tveimur eiturlyfjahringjum á svæðinu á síðasta ári. Það sem af er þessu ári hafa 600 manns látið lífið í slíkum átökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×