Erlent

Innflytjendur verða að læra frönsk gildi

Óli Tynes skrifar

Nicolas Sarkozy hefur oftar en einusinni verið gagnrýndur fyrir ummæli sín um innflytjendur í Frakklandi. Það var því hent á lofti þegar hann sagði að innflytjendur yrðu að gera sér grein fyrir að í Frakklandi væri frönsk þjóðarvitund og frönsk gildi.

Á kosningafundi í gær sagðist Sarkozy ekki sjá neitt athugavert við þessi ummæli. Hann sagði að ef ekki væri hugsað um franska þjóðarvitund og hún útskýrð fyrir þeim sem vildu verða franskir, væri ekki hægt að búast við því að innflytjendur gætu aðlagast.

Sarkozy sagði allt í lagi að innflytjendur kæmu með sína eigin trú og siði, en þeir yrðu að gera sér grein fyrir að í Frakklandi væru gildi sem ekki yrðu gefin eftir.

Sarkozy er fyrrverandi innanríkisráðherra Frakklands og setti þá strangar reglur um málsmeðferð ólöglegra innflytjenda, og unglinga. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Sarkozy gott forskot á aðra frambjóðendur, en þó er gert ráð fyrir að kosið verði tvisvar. Það er gert ef enginn frambjóðandi fær hreinan meirihluta. Fyrri umferð kosninganna verður 22. apríl og hin síðari 6. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×