Erlent

Páfi valtar yfir Da Vinci skjölin

Óli Tynes skrifar
Benedikt sextándi, páfi.
Benedikt sextándi, páfi.

Benedikt Páfi hefur sent frá sér sína fyrstu bók eftir að hann tók við því embætti og nefnist hún Jesús frá Nazaret. Í henni vísar hann óbeint á bug vangaveltum um líf Krists eins og komu fram í metsölubókinni Da Vinci skjölin. Bókin er sögð vera persónuleg leit hans að ásjónu Krists.

Líklega verður bókin ekki almenningi jafn auðlesin og Da Vinci skjölin. Hún er 450 blaðsíður og er sögð flókið fræðirit um Krist, bæði sem mann og Guð. Páfi kryfur og greinir ritningargreinar eins og sá gamli háskólaprófessor sem hann eitt sinn var.

Benedikt segir að í bókinni reyni hann að kynna Jesús guðspjallanna sem hinn raunverulega Jesús og hinn sagnfræðilega Jesús eins og hann var og lifði í raun og sannleika. Páfi segir; "Já, það gerðist. Jesús er ekki mýta. Hann var maður af holdi og blóði, algjörlega raunveruleg nærvera í sögunni. Hann dó og reis upp frá dauðum."

Christof Schonborn, kardináli, sem kynnti bókina fyrir hönd Benedikts sagði að hún byggði á hinni traustu, sögulegu ábyrgð guðspjallanna. Asnalegar vangaveltur um Krist sem byltingarmann eða leynilegan elskhuga Maríu Magdalenu, ættu heima í ruslageymslu sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×