Erlent

Hársbreidd frá því að skjóta niður farþegaþotu

Óli Tynes skrifar
Fjórar orrustuþotur voru sendar á móti Continental farþegaþotunni.
Fjórar orrustuþotur voru sendar á móti Continental farþegaþotunni.

Það munaði ekki nema hársbreidd að ísraelskar orrustuþotur skytu niður bandaríska farþegaflugvél sem var að fara að lenda í Tel Aviv, í gær. Þotan var frá Continental Airlines. Flugmönnunum láðist að tilkynna komu sína inn í ísraelska lofthelgi. Flugumferðarstjórar kölluðu vélina margsinnis upp, en þegar hún svaraði ekki voru fjórar orrustuþotur sendar á móti henni.

Ísraelska sjónvarpið segir að forsætisráðherra Ísraels, varnarmálaráðherra og yfirmanni herráðsins hafi verið tilkynnt að flugherinn væri að fara að skjóta niður farþegaþotu sem talið væri að hryðjuverkamenn hefðu á sínu valdi.

Sjónvarpið segir að flugmennirnir hafi á síðustu stundu rankað við sér og svarað flugturninum. Orrustuþotunum var þá snúið heim. Þess má geta að árið 1973 skutu ísraelskar orrustuþotur niður Libyska farþegaþotu sem villtist af leið, og hlýddi ekki fyrirmælum frá flugstjórn.

Eitthundrað og átta manns fórust með vélinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×