Erlent

Lífskjörin fara stöðugt versnandi

Fjórum árum eftir innrásina í Írak fer hagur þjóðarinnar stöðugt versnandi. Í nýrri skýrslu Alþjóðaráðs Rauða krossins segir að vargöldin í landinu hafi gert líf almennings óbærilegt, sjúkrahús séu óstarfhæf vegna ótta starfsfólks og skortur á brýnustu nauðsynjum sé viðvarandi.

Fjögur ár eru síðan innrásarliðið í Írak lagði undir sig höfuðborgina Bagdad og við það tækifæri bjuggust margir við að átökum lyki og betri tíð væri framundan. Þær vonir hafa ekki ræst eins og glöggt má sjá af nýrri skýrslu Alþjóðaráðs Rauða krossins. Niðurstaða könnunar sem starfsmenn ráðsins gerðu á meðal Íraka er skýr: Lífskjör almennings í þessu stríðshrjáða landi eru afar slæm og þjáningar þjóðarinnar óbærilegar. Ástandið virðist fara versnandi með hverjum mánuðinum, þannig eru verslunarferðir orðnar lífshættulegar vegna þess ófremdarástands sem ríkir svo víða í landinu. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar búa við skort á lyfjum og búnaði og starfsfólk þeirra er sagt of hrætt til að þora til vinnu. Þá búa íbúar víða um Írak við matarskort og vannæring er því sögð aukast. Innviðir samfélagsins eru ennþá í lamasessi og því verða margir að sætta sig við að vera án rafmagns og rennandi vatns.

Þar sem hlutleysi er lykilatriði í starfi Rauða krossins er engum kennt um ástandið en skýrsluhöfundar draga þó engan dul á að bæði írösk stjórnvöld og erlenda setuliðið gætu staðið sig mun betur en þau hafa gert hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×