Erlent

Kárahnjúkar virkja kínverska drauma

Kínverskur verkamaður að störfum á Kárahnjúkum.
Kínverskur verkamaður að störfum á Kárahnjúkum. MYND/Adam Scott

Kárahnjúkavirkjun er þegar farin að hafa áhrif á landann. En það sem oft gleymist er að hún hefur áhrif langt út fyrir landsteinana. Þetta kemur fram í grein sem birt var á vefsíðu Time þann 6. apríl síðastliðinn.

Í greininni er talað um þann mikla fjölda Kínverja sem vinnur við gerð stíflunnar. Í henni segir að 40% af 1150 verkamönnum séu frá Kína. Ástæðan er sögð vera hversu lítill hópur hæfra verkamanna sé til staðar á Íslandi og þau laun sem Kínverjunum stendur til boða. Launin sem þeir fá á einum mánuði hér á landi eru sambærileg við tveggja ára laun í Kína.

Sumir þeirra hafa lengi unnið fyrir Impregilo. Sumir eiga fjölskyldur í Kína sem þeir hafa ekki séð í langan tíma. Margir þeirra senda peninga til baka, kaupa hús handa foreldrum sínum eða stofna sín eigin fyrirtæki.

Impregilo er hrósað fyrir að reyna að gera sem best við starfsmenn sína, sem kvarta einna helst yfir kuldanum og skorti á sólarljósi.

Í lokin á greininni er talað við Tian Weili, en hún á 11 ára dóttur í Kína. Hún hefur verið í burtu frá fjölskyldu sinni í fjögur ár. Fyrir henni er valið auðvelt. Að vera á Kárahnjúkum hjálpar henni og gefur henni möguleikann á að breyta lífi fjölskyldu sinnar til batnaðar.

Hægt er að sjá greinina í fullri lengd hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×