Erlent

Byggja stíflu og bjarga hafinu

Aralhafið, eða Araleyðimörkin, sést á þessari mynd.
Aralhafið, eða Araleyðimörkin, sést á þessari mynd. MYND/AFP

Stjórnvöld í Kasakstan fengu í gær vilyrði fyrir 128 milljóna dollara láni frá Heimsbankanum (e. World Bank) til þess að fylla Aralhafið á ný. Peningarnir verða notaðir til þess að hleypa af stokkunum öðrum hluta verkefnis sem miðar að því að koma sjó aftur í Aralhafið. Sameinuðu þjóðirnar segja að hvarf Aralhafsins sé eitthvert mesta og stærsta umhverfisslys sögunnar. Þetta verkefni mun þó verða til þess að hafið snýr aftur.

Saga Aralhafsins nær aftur til ársins 1970. Þá var það fjórða stærsta innhaf heimsins. Stjórnvöld í Sovíetríkjunum ákváðu þá að veita tveimur meginám, sem runnu í Aralhafið, á bómullarakra í Úsbekistan og Kasakstan. Aralhafið fór þá að minnka og hvarf nær að lokum. Eyðimerkur mynduðust þar sem áður voru fiskimið, hagkerfið hrundi, lífkerfið brást og þúsundir þurftu að yfirgefa heimahaga sína.

Árið 1990 var aðeins fjórðungur Aralhafsins eftir og brugðu stjórnvöld í Kasakstan þá á það ráð að reisa stíflu sem skipti hafinu í tvennt. Vatn fór þá að safnast saman og hefur hafið stækkað um nærri 40 prósent síðan þá. En suðurhluti hafsins, sem er í Úsbekistan, er enn að minnka. Lánið sem vilyrði fékkst fyrir í gær á því að nota til þess að byggja aðra stíflu sem á að bjarga suðurhlutanum.

Fréttavefur BBC skýrir frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×