Viðskipti innlent

Gott dæmi um virðingarleysi

Friðrik J. Skúlason tölvunarfræðingur segir Íslendinga bera litla virðingu fyrir lögum og reglu, og því sjái þeir ekkert að því að stela hugbúnaði. „Til að koma þessu í lag þarf að kenna Íslendingum að skammast sín, og það hefur ekki tekist enn,“ segir hann.
Friðrik J. Skúlason tölvunarfræðingur segir Íslendinga bera litla virðingu fyrir lögum og reglu, og því sjái þeir ekkert að því að stela hugbúnaði. „Til að koma þessu í lag þarf að kenna Íslendingum að skammast sín, og það hefur ekki tekist enn,“ segir hann.

Samkvæmt árlegri rannsókn alþjóðlegra samtaka hugbúnaðarframleiðenda (Business Software Alliance) voru 53 prósent af hugbúnaði á Íslandi ólöglega fengin árið 2006. Til samanburðar var Svíþjóð með 26 prósent, Noregur með 29 prósent, Danmörk með 25 prósent og Finnland með 27 prósent. Heimsmeðaltalið er þrjátíu og fimm prósent.

„Staðan hefur lagast á síðastliðnum þremur árum, en hún er ennþá slæm. Það er mikill tvískinnungur fólginn í því að segjast vera hugverkaland sem byggir á mannauði, en hafa svo mjög slakar hugmyndir um hugverkarétt,“ segir Halldór Jörgensen, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.

Friðrik J. Skúlason tölvunarfræðingur segir sérstöðu Íslands í þessum málum gott dæmi um almennt virðingarleysi landans fyrir lögum og reglu. „Fólk heldur að þetta sé allt í lagi af því það hefði hvort eð er ekki keypt hlutinn, eða út af einhverri annarri afsökun. Þangað til hugarfarsbreyting verður þurfum við að sætta okkur við að Ísland sé á bás með þessum þjóðum sem við viljum sjaldnast bera okkur saman við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×