Innlent

Sveitarfélögin þurfa að efla aðstoð við fátæka

Sveitarfélögin verða að taka sig á í aðstoð sinni við fátæka. Þetta er mat fjármálaráðherra sem efast jafnframt um mælistiku OECD á fátækt, segir hana mæla tekjudreifingu en ekki fátækt.

Fjármálaráðherra boðaði fund í dag í tilefni af umræðu um fátækt á Íslandi eftir að birt var skýrsla sem sýndi að 4634 börn í tæplega þrjú þúsund fjölskyldum byggju við fátækt hér á landi. "Ég er ekkert að bera brigður á skýrsluna," segir Árni Mathiesen fjármálaráðherra. "En hún er ákveðið sjónarhorn og ég held að við þurfum að hafa önnur sjónarhorn líka í huga."

Aðrar mælistikur gætu sýnt að fleiri eða færri lentu undir fátækramörkum, segir Árni. Fátækt á Íslandi þurfi að skoða í víðtækara samhengi en út frá þessari skýrslu. Tölurnar í henni séu tveggja ára gamlar og ýmsar breytingar verið gerðar að undanförnu, meðal annars munu skerðingamörk barnabóta hafa hækkað um 50% á tveimur árum frá næstu áramótum. Árni segir áhugavert að vita hverju þessar breytingar munu skila.

Á fundinum benti ráðherra á sveitarfélögin og taldi öryggisnet þeirra gisið í ljósi þess að einstaklingur - eða einstætt foreldri - sem er með meira en tæpar 88 þúsund krónur í tekjur á mánuði fengi enga aðstoð frá sveitarfélögunum. Hins væri ríkið að standa sig nokkuð vel eins og dæmi sem tekin voru á fundinum af þremur bótaþegum með mismunandi fjölskylduaðstæður. Í þeim dæmum lenti enginn bótaþeganna undir fátækramörkum samkvæmt skilgreiningu OECD. "Ég efast ekki um að þeir séu í erfiðleikum þannig að ég held að í sumum tilfellum sé þetta ekki tekjuvandamál heldur útgjaldavandamál. Og það er miklu erfiðara fyrir kerfið að taka á slíku vandamáli."

Aðspurður hvort það væri markmið ríkisstjórnarinnar að útrýma fátækt svaraði ráðherra; "Markmið ríkisstjórnarinnar er að bæta kjör allra þjóðfélagsþegna eins og við mögulega getum."

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×