Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að réttarhöldin yfir Saddam Hussein hafi verið meingölluð og dómurinn yfir honum því rangur. Verði hann tekinn að lífi er óttast að átök muni breiðast út um öll Miðausturlönd.
Tvær vikur eru liðnar frá því að dauðadómur var kveðinn upp yfir Saddam Hussein og tveimur samstarfsmönnum hans vegna morða á 148 sjíum í bænum Dujail árið 1982.
Í 97 blaðsíðna langri skýrslu sinni komast sérfræðingar Human Rights Watch hins vegar að þeirri niðurstöðu að öll umgjörð réttarhaldanna yfir þeim hefði verið svo gölluð að útilokað væri að mennirnir hefðu fengið sanngjarna málsmeðferð.
Í skýrslunni segir meðal annars að einangrun Íraka á alþjóðavettvangi þýddi að íraskir dómarar og lögfræðingar hefðu ekki næga þekkingu á alþjóðalögum til að ráða við svo flókin réttarhöld, dómararnir hefðu verið hlutdrægir og verjendur ekki fengið að gagnspyrja vitni. Ekki bætti úr skák að þrír úr verjendaliðinu voru myrtir meðan á réttarhöldunum stóð. Samtökin segja því dauðadóminn yfir Saddam algerlega óverjandi.
Áfrýjunardómstóll fjallar um mál einræðisherrans fyrrverandi á næstu vikum og allar líkur eru á að dómurinn verði þar staðfestur. Í veftímariti Al-jazeera sjónvarpsstöðvarinnar er því haldið fram að verði Saddam hengdur muni borgarstyrjöldin í Írak magnast um allan helming og breiðast út til nálægra landa.
Á meðal súnnía í Miðausturlöndum er almennt litið svo á að dauðadómurinn hafi verið pantaður af ríkisstjórn George Bush vegna þingkosninganna sem fram fóru í Bandaríkjunum á dögunum og því muni þeir rísa upp gegn þeim sem studdu dóminn.