Erlent

Viðræðurnar runnar í sandinn

Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons (í miðjunni), og Nabih Berri, þingforseti (til hægri), ráða ráðum sínum en Michel Aoun virðist öllum lokið.
Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons (í miðjunni), og Nabih Berri, þingforseti (til hægri), ráða ráðum sínum en Michel Aoun virðist öllum lokið. MYND/AP

Viðræður stjórnmálafylkinga Líbanons um valdaskiptingu í landinu eru farnar út um þúfur eftir að núverandi ríkisstjórnarflokkar höfnuðu kröfum Hizbollah-samtakanna um að fá aukinn hlut í stjórn landsins.

Leiðtogar Hizbollah telja sanngjarnt að hreyfingin fái aðild að ríkisstjórninni eftir að hafa borið hitann og þungann af átökunum við Ísraela í sumar og að lokum hrundið sókn þeirra. Þar sem fylking stjórnmálaflokka sem barist hefur gegn áhrifum Sýrlendinga í Líbanon hefur töglin og hagldirnar í ríkisstjórninni hafa kröfur Hizbollah-liða fallið í grýttan jarðveg, en samtökin hafa notið velvildar Sýrlendinga og Írana frá því að þau voru stofnuð. Hizbollah og bandamenn þeirra töpuðu í þingkosningunum í Líbanon sem fram fóru fyrir hálfu öðru ári en þær voru haldnar í kjölfar mikillar reiðiöldu í garð Sýrlendinga eftir morðið á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra. Sýrlendingum hefur verið kennt um tilræðið og herlið þeirra hrökklaðist frá Líbanon nokkrum mánuðum síðar.

Núverandi ríkisstjórn var reiðubúin til að taka Michel Aoun, einn af leiðtogum kristinna og bandamann Hizbollah, inn í stjórninna en féllst ekki á að gefa eftir þriðjung sætanna stjórninni, enda hefði það veitt Hizbollah neitunarvald innan hennar.

Óttast er að viðræðuslitin geti leitt til átaka á milli fylkinganna á götum höfuðborgarinnar Beirút. Jafnframt er talið að nú verðir erfiðara að koma á fót sérstökum dómsstól sem rétta á yfir þeim sem grunaðir eru um tilræðið við Hariri en stofnun hans er að beiðni Sameinuðu þjóðanna sem rannsakaði málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×