Erlent

Dómi yfir Kenneth Lay hrundið

Dómstóll í Bandaríkjunum hratt í dag fjársvikadómi yfir Kenneth Lay, fyrrverandi forstjóra olíurisans Enron, á þeim forsendum að hann gæti ekki áfrýjað honum. Lay lést í júlí síðastliðnum, tveimur mánuðum eftir að hann var sakfelldur fyrir fjársvik og samsæri í tengslum við gjaldþrot fyrirtækisins árið 2001.

Líklegt er talið að þessi úrskurður torveldi yfirvöldum að endurheimta jafnvirði tæpra þriggja milljarða íslenskra króna sem Lay mun hafa stolið frá hluthöfum. Yfirvöld eiga þar í kapphlaupi við fyrrverandi fjárfesta og starfsmenn orkurisans.

Lögfræðingar Lay byggðu kröfu sína á því að áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefði komist að þeirri niðurstöðu árið 2004 að ríkið gæti ekki refsað látnum mönnum eða dánarbúi þeirra ef þeim hefði ekki auðnast að áfrýja dómi.

Dómur verður kveðinn upp yfir fyrrverandi stjórnanda Enron, Jeffrey Skilling, í næstu viku en hann var ákærður ásamt Lay.

Andrew Fastow, fyrrverandi fjármálastjóri fyrirtækisins, vitnaði gegn Lay og Skilling, og var hann dæmdur í 6 ára fangelsi fyrr í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×