Erlent

Segja refsiaðgerðir jafngilda stríðsyfirlýsingu

Norður-Kóreumenn segja að refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna vegna kjarnorkutilrauna þeirra jafngildi stríðsyfirlýsingu. Vísbendingar eru um að önnur tilraunasprenging sé í bígerð.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti á laugardaginn að beita Norður-Kóreu efnahagsþvingunum vegna tilraunasprengingarinnar í síðustu viku. Norðurkóresk stjórnvöld gáfu út sína fyrstu yfirlýsingu um ályktunina í ríkisjónvarpinu í morgun.

Í yfirlýsingunni segir að með ályktuninni hafi öryggisráðið lýst yfir stríði og hverju því ríki sem ráðist gegn Norður-Kóreu verði refsað grimmilega. Bandarískir vísindamenn greindu frá því í gær að sýni úr andrúmslofti bentu til að Norður-Kóreumenn hefðu sprengt kjarnorkusprengju sem hefði verið tæpt kílótonn.

Í morgun sögðu svo japanskir og suðurkóreskir leyniþjónustumenn að vísbendingar væru um önnur sprenging væri í bígerð á svipuðum slóðum. Á fundi bandarískra og rússneskra erindreka í Seúl í Suður-Kóreu í morgun kom fram að frekari tilraunir myndu flækja deiluna enn frekar. Christopher Hill, sendifulltrúi Bandaríkjastjórnar, sagði að slíkt jafngilti stríðsyfirlýsingu af hálfu Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×