Svo virðist sem einn maður hafi rænt tyrkneskri farþegaflugvél í dag en ekki tveir eins og haldið hefur verið fram. Vélin var á leið frá Tírana í Albaníu til Istanbúl þegar henni var rænt og beint til Ítalíu. Henni var lent í Brindisi á Suður-Ítalíu og fylgdu grískar herþotur henni mest alla leiðina.
Allir farþegarnir 107 hafa farið frá borði auk sex manna áhafnar. Einn maður er nú í haldi lögreglu að sögn flugmálayfirvalda í Brindisi. Enn sé þó kannað hvort annar flugræningi hafi verið um borð og hvort hann hafi komist undan.
Fyrr í dag var fullyrt að flugvélinni hefði verið rænt til að mótmæla fyrirhugaðri heimsókn Benedikts páfa XVI. til Tyrklands í lok nóvember. Það virðist þó ekki hafa verið ástæðan og hafa tyrkneskir fjölmiðlar sagt flugræningjann, sem er Tyrki, hafa tekið kristni. Með því að beina flugvélinni til Ítalíu hafi hann viljað reyna að fá áheyrn hjá páfa og óska aðstoðar hans í forða sér frá herþjónustu í Tyrklandi.