Skoðun

Framlög til LÍN skorin niður

Nú á dögunum voru samþykkt fjárlög fyrir árið 2007 frá Alþingi. Þegar málið kom til þriðju og síðustu umræðu í Alþingi kom fram breytingartillaga frá fulltrúum stjórnvalda um að skera niður áður áætlað framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) um 139 milljónir.

Gefnar voru þær skýringar að ekki væri gert ráð fyrir eins mikilli fjölgun lánþega og að gengisþróun hafi verið hagstæðari en áður hafi verið áætlað.

Af þessu má ráða að svigrúm hefði verið til að veita meira fé til LÍN en var gert. Sérstaklega ef sú staðreynd er höfð í huga að tekjuafgangur fjárlaganna er 9,1 milljarður króna.

Það er margt sem má betur fara hjá LÍN og hafa námsmannahreyfingarnar margoft lagt fram kröfur sínar sem miða að bættum lánasjóði, fyrir stjórn LÍN. Blessunarlega eiga fulltrúar námsmanna sæti í stjórninni ásamt fulltrúum stjórnvalda, því ætti stjórnvöldum að vera vel kunnugt um kröfur námsmanna og ástæðu þess að kröfunum er hafnað. Jú, ástæðan er sú að það er ekki til nógu mikill peningur hjá lánasjóðnum. Það er peningaskortur LÍN sem stendur í vegi fyrir bættum hag námsmanna. Því er sárt að horfa upp á þennan niðurskurð á framlögum til LÍN.

Námsmannahreyfingarnar sendu frá sér tilkynningu á dögunum þar sem sagt er að þeim þyki miður að þessi niðurskurður hafi átt sér stað og á öðrum stað segir: „Sjóðinn vantar aukið fjármagn til að gera nauðsynlegar breytingar. Sem dæmi má nefna að enn er ekki farið að lána fyrir skólagjöldum í grunnnámi erlendis, endurgreiðsla þarf að stöðvast þegar nám hefst að nýju, námsmenn í hlutanámi fá ekki námslán og leiðrétta þarf upphæð grunnframfærslu fyrir ákveðna hópa.

Vaxtarstyrkurinn sem á að brúa bilið í tekjuöflun námsmanna milli þess að nám hefst og að námslán eru greidd út er ekki nógu hár.“ Þetta er langt því frá að vera tæmandi listi og enn ónefnd sú staðreynd að námslánin eru of lág og mæta ekki eðlilegri framfærsluþörf námsmanna. Ekki nóg með það heldur skerðast lágu námslánin í hlutfalli við tekjur lánþegans og er honum þannig refsað fyrir að afla sér tekna.

Því má vera ljóst að bæta þarf kjör námsmanna en því miður virðist vilji stjórnvalda til þess ekki vera mikill. Þessar 139 milljónir hefðu verið nýttar til góðra verka hjá lánasjóðnum.

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×