Erlent

Ætlar kannski að segja af sér

Al-Hilali segist ætla að segja af sér ef þriggja manna nefnd kemst að því að hann hafi hvatt til nauðgana.
Al-Hilali segist ætla að segja af sér ef þriggja manna nefnd kemst að því að hann hafi hvatt til nauðgana. MYND/AP

Sheik Taj Aldin Al-Hilali, múslimaklerkurinn í Ástralíu sem vakti hörð viðbrögð í september þegar hann sagði slæðulausar konur vera eins og óvarið kjöt, sagðist á föstudag ætla að segja af sér ef óháð nefnd kemst að þeirri niðurstöðu að með þessum ummælum hafi hann verið að hvetja til nauðgana.

Al-Hilali hefur verið æðsti leiðtogi múslima í Ástralíu frá árinu 1989. Síðastliðinn mánudag ákvað hann að taka sér frí um óákveðinn tíma eftir að hann féll í yfirlið í Lakemba-moskunni í Sydney.

Hann sneri þó aftur í moskuna í gær, vopnaður blómum sem hann gaf bæði fjölmiðlum og lögreglunni, og var fagnað þar af hundruð stuðningsmanna sinna sem mættir voru til hádegisbæna.

Einnig sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvatti til þess að þriggja manna nefnd, skipuð einum dómara og tveimur lögmönnum, yrði fengin til að rannsaka ummælin umdeildu frá í september.

„Hver sá,“ sagði í yfirlýsingunni, “sem réttlætir nauðgunarglæp eða hvetur til slíks undir hvaða kringumstæðum sem er, eða hver sá sem vanvirðir ástralskar konur vegna klæðnaðar þeirra, er ekkert annað en fávís, heimskur og truflaður og á ekki skilið að gegna neinni ábyrgðarstöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×