Erlent

Trump heitir í­hlutun ef stjórn­völd hefja af­tökur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Talið er að um átján þúsund mótmælendur hafi verið handteknir og að aftökur gætu hafist í vikunni.
Talið er að um átján þúsund mótmælendur hafi verið handteknir og að aftökur gætu hafist í vikunni. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að grípa til afdráttarlausra aðgerða ef stjórnvöld í Íran hefja aftökur á handteknum mótmælendum. Trump hafði áður hótað ráðamönnum í Íran vegna ofbeldis gegn mótmælendum en áætlað er að yfir 2.500 manns hafi látist fram að þessu.

Auk þeirra sem hafa látist í mótmælunum hafa þúsundir til viðbótar verið handteknir og óttast er að einn þeirra, Erfan Soltani, verði hengdur á næstu dögum. Soltani, 26 ára, var handtekinn á fimmtudaginn í síðustu viku og hefur þegar verið dreginn fyrir dóm og fundinn sekur.

Mannréttindasamtök í Noregi áætla að um 1.500 manns hafi verið teknir af lífi með hengingu í Íran í fyrra en talið er að um átján þúsund manns hafi verið handteknir í tengslum við mótmælin á síðustu dögum og vikum.

Óvíst er hvað Trump hyggst gera ef aftökur hefjast en greinendur segja fáa kosti í stöðunni. Forsetinn hefur hins vegar verið ófeiminn við að hvetja mótmælendur til dáða, heitið þeim stuðningi Bandaríkjanna og sagt aðstoð á leiðinni. 

Ein leið sem nefnd hefur verið til sögunnar er að efla getu fólks til að skipuleggja sig og mótmæla en það mætti til að mynda gera með því að greiða aðgengi að internetinu. Greint hefur verið frá því að öryggisyfirvöld í Íran hafi unnið að því að leita að og eyðileggja fjarskiptabúnað, meðal annars þann sem gæti tengt íbúa við Starlink, gervihnattanet Elon Musk.

Stjórnvöld í Íran segja möguleg afskipti Bandaríkjamanna ekki munu skila tilætluðum árangri, það er að segja að steypa stjórninni af stóli. Þá hafa ráðamenn í Rússlandi sakað Bandaríkjamenn um að freista þess að nota mótmælin til að tortíma Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×