Körfubolti

Haukar réðu ekki við Thomas

adam darboe Átti góðan leik fyrir Grindavík í gær.
adam darboe Átti góðan leik fyrir Grindavík í gær. MYND/víkurfréttir /Þorsteinn

Grindavík hélt áfram sigurgöngu sinni í Iceland Express deild karla í gær og nú báru þeir sigurorð á Haukum, 95-85. Heimamenn gerðu út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks og breyttu átta stiga forskoti í 24 stiga forskot á sex mínútna kafla. Páll Axel Vilbergsson hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en skoraði tíu stig á þessum leikkafla. Segja má að Grindvíkingar hafi keyrt yfir andstæðinga sína því tólf af stigunum 20 komu úr hraðaupphlaupssóknum.

Haukar náðu að vísu að minnka muninn í átta stig á nýjan leik en náðu aldrei að ógna Grindvíkingum að einhverju ráði. Heimamenn voru með ágætis tök á leiknum og réðu ekkert við Steven Thomas sem skoraði 24 stig í leiknum, tók 23 fráköst og fiskaði ellefu villur. Adam Darboe átti einnig ágætan leik og Páll Axel kom sterkur inn í seinni hálfleik sem fyrr segir en nítján af 23 stigum hans komu þá.

Í liði Hauka var Roni Leimu yfirburðamaður en gaman var að sjá Kristinn Jónasson sem kom ferskur inn í Haukaliðið eftir að hafa meiðst á undirbúningstímabilinu. Hann skoraði 15 stig á 20 mínútum.

Það er annars áhyggjuefni fyrir Friðrik Ragnarsson, þjálfara Grindavíkur, að öll stig liðsins komu frá byrjunarliðsmönnunum. Liðið virðist hafa litla breidd sem gæti reynst erfitt þegar fram í sækir. Tveir sigrar eru þó komnir í hús af tveimur mögulegum en gegn liðum sem var ekki spáð í toppbaráttu deilarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×