Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-il, sagði ríkisstjórn sína ekki ætla að prófa fleiri kjarnorkuvopn og sagðist harma tilraunina sem gerð var í síðustu viku, kom fram í fréttum suðurkóreskra fjölmiðla í gær. Á leiðtoginn að hafa látið þessi orð falla á fundi með afar hátt settum kínverskum embættismanni, Tang Jiaxuan, á fimmtudag.
Á sama tíma söfnuðust yfir hundrað þúsund manns saman á aðaltorginu í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, til að „fagna vel heppnaðri sögulegri kjarnorkutilraun“, að sögn ríkisrekinna fjölmiðla landsins.
Samkvæmt fréttum suðurkóresku fjölmiðlanna sagðist Kim vera að íhuga að snúa aftur að samningaborði þjóðanna sex, sem hafa árangurslítið verið að reyna að finna friðsamlega lausn á kjarnorkuáætlun kommúnistaríkisins.
„Ef Bandaríkin gefa svolítið eftir, þá munum við líka gefa svolítið eftir, hvort sem um tvíhliða eða sex-þjóða viðræður er að ræða,“ á Kim að hafa sagt.
Hlé hefur verið á viðræðunum síðan í fyrra, eftir að Norður-Kóreumenn neituðu að taka frekari þátt þegar Bandaríkin hófu að beita kommúnistaríkið efnahagsþvingunum vegna meints peningaþvættis.