Sport

Keflvíkingar lögðu ÍR

Íslandsmeistarar Keflavíkur áttu ekki í teljandi vandræðum með ÍRinga í Seljaskóla í fyrsta leiknum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. ÍRingar höfðu reyndar forystu eftir fyrsta leikhlutann, 25-23, en eftir það var leikurinn eign Íslandsmeistaranna, sem sigruðu 98-81. Bandaríkjamaðurinn A.J. Moye var atkvæðamestur í liði Keflavíkur með 31 stig og virkaði mjög líflegur, en annars var stigaskorun mjög dreifð hjá liðinu, sem hefur leiktíðina eins og það kláraði þá síðustu. Theo Dixon var að venju stigahæstur í liði ÍR með 23 stig, en náði sér þó aldrei almennilega á strik. Næstur honum kom Slóveninn Ales Zivanovic með 20 stig, en það er stór og stæðilegur leikmaður sem gæti átt eftir að styrkja lið ÍR verulega þegar hann kemst betur inn í hlutina hjá liðinu. Stig ÍR: Theo Dixon 23, Ales Zivanovic 20,  Eiríkur Önundarson 15, Ómar Sævarsson 14, Ólafur Sigurðsson 5, Fannar Helgason 4. Keflavík: A.J. Moye 31, Magnús Þór Gunnarsson 14, Arnar Freyr Jónsson 12, Jón N. Hafsteinsson 11, Sverrir Sverrisson 9, Elentínus Margeirsson 8, Davíð Jónsson 4, Halldór Halldórsson 4,Gunnar Einarsson 3, Þröstur Jóhannsson 2.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×