Körfubolti

Ekki búinn að spila eina mínútu á tíma­bilinu en var dæmdur í bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid hefur bara verið í borgaralegum klæðum það sem af er á þessu NBA tímabili.
Joel Embiid hefur bara verið í borgaralegum klæðum það sem af er á þessu NBA tímabili. Getty/ Justin Casterline

Joel Embiid, miðherji og súperstjarna Philadelphia 76ers liðsins, var í gær dæmdur í þriggja leikja bann af NBA deildinni í körfubolta.

Embiid fékk bannið fyrir að hrinda blaðamanni í búningsklefa 76ers eftir tap liðsins á móti Memphis Grizzlies um helgina.

„Gagnkvæm virðing verður að ríkja á milli leikmanna og blaðamanna í NBA,“ sagði Joe Dumars, aðstoðarframkvæmdastjóri körfuboltamála hjá NBA, í yfirlýsingu um bannið. Blaðamenn hafa gríðarlegt aðgengi að leikmönnum þar á meðal í búningsklefum liðanna.

„Við áttum okkur á því að Joel var móðgaður vegna umfjöllunar blaðamannsins um hans persónulegu mál. Ósætti og samskipti mega samt aldrei leiða til líkamlegra átaka,“ sagði Dumars.

Málið er að Embiid hefur enn ekki spilað eina mínútu á tímabilinu. Síðasti leikur hans var með bandaríska landsliðinu í úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í París.

Embiid mun taka út bannið í næstu þremur leikjum sem eru á móti LA Clippers á miðvikudag, Los Angeles Lakers á föstudag og Charlotte Hornets á sunnudaginn. Fyrsti leikur hans á leiktíðinni gæti verið á móti New York Knicks á þriðjudaginn í næstu viku.

Blaðamaðurinn hafði fjallað um son Embiid og látinn bróður hans í pistlinum. Hann setti líka spurningarmerki við fagmennsku Embiid og vilja hans til að halda sér í formi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×