Sport

Spáin kom Einari á óvart

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur í úrvalsdeildinni í körfubolta, segir að nýútkomin spá forráðamanna, þjálfara og leikmanna hafi komið sér nokkuð á óvart, en eins og greint var frá hér á Vísi í dag, var Njarðvíkingum spáð efsta sæti í deildinni í vetur. "Jú, ég verð að segja að það kemur manni dálítið á óvart að okkur séð spáð efsta sætinu í ljósi árangurs Keflavíkur á undanförnum árum," sagði Einar Árni, sem stýrði sínum mönnum til sigurs í meistarakeppni KKÍ um helgina, þar sem liðið vann frækinn sigur á Keflvíkingum. "Menn byggja þessa spá kannski dálítið á gengi liðsins á undirbúningstímabilinu því þar hefur okkur gengið nokkuð vel. Okkur var nú reyndar spáð efsta sæti í fyrra líka, þannig að við erum kannski að verða bara eins og KR í fótboltanum," sagði Einar. "Það verður auðvitað nokkuð breytt landslag í körfuboltanum í vetur eftir breytingarnar á útlendingamálunum. Ég hefði haldið að lið eins og Keflavík og Grindavík væru í rauninni að styrkja sig meira en við, þannig að þessi spá kemur manni dálítið á óvart. Það er hinsvegar engin spurning að við ætlum okkur að vera með í baráttunni í vetur," sagði Einar, sem hefur trú á að fimm lið verði í nokkrum sérflokki í vetur. "Ég hugsa að Suðurnesjaliðin, KR og kannski Skallagrímur verði að berjast á toppnum, en maður skyldi ekki afskrifa lið eins og Snæfell og Þór á Akureyri, sem vel gætu orðið spútniklið eins og Fjölnir var í fyrra," sagði Einar, sem aðspurður sagði stefnu Njarðvíkinga alltaf vera að skila bikar í hús, en vildi ekki tjá sig frekar um yfirlýst markmið Njarðvíkinga í keppni vetrarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×