Sport

NBA leikmenn söfnuðu milljón

NordicPhotos/GettyImages
Miami Heat og San Antonio Spurs mættust í gærkvöld í sérstökum fjáröflunarleik fyrir fórnarlömb fellibylsins Katrínar. Miami hafði betur 103-101, en leikurinn var einnig liður í æfingatímabili liðanna tveggja. Yfir ein milljón Bandaríkjadala safnaðist í kjölfar leiksins. Bæði lið hafa bætt við sig nokkrum leikmönnum í sumar og var leikurinn því kjörið tækifæri til að leyfa þeim að spreyta sig. Það var nýliði Miami, Kevin Braswell sem skoraði sigurkörfu Miami rétt áður en lokaflautan gall og Gregg Popovich sagði dómurum leiksins að láta körfuna standa og vera ekki að hafa fyrir því að fara yfir myndbandsupptökur af atvikinu, eins og venja er með slíkt þegar tæpt þykir standa. "Shaq sagði mér að ég fengi boltann áður en við gengum inn á völlinn og það var gaman að ná að klára þetta fyrir framan allt þetta fólk" sagði Braswell, en tæplega 20.000 manns voru í höllinni. Shaquille O´Neal skoraði 17 stig og hirti 8 fráköst á aðeins 22 mínútum fyrir Miami og Dwayne Wade skoraði 18 stig, þar af eina körfu frá miðju í lok fyrri hálfleiks. Tim Duncan skoraði 16 stig og hirti 10 fráköst, allt í fyrri hálfleik og Manu Ginobili skoraði 13 stig á 16 mínútum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×