Sport

Arnór, Sigfús og Alfreð slógu met

Arnór Atlason, Sigfús Sigurðsson og þjálfarinn Alfreð Gíslason í Magdeburg, slógu nýtt met í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta með 23ja marka sigri á botnliði Wilhelmshavener HV í fyrrakvöld, 45-22. Arnór fékk loksins tækifæri í liði Magdeburg og skoraði sjö mörk og Sigfús skoraði þrjú. Magdeburg jafnaði met Kiel sem sigraði Pfullingen einnig með 23ja marka mun, 48-25, fyrir tveimur árum. "Ég spilaði allan leikinn, lengst af sem leikstjórnandi en síðasta korterið fór ég í hornið til að leysa Stefan Kretzschmar af hólmi en hann var hvíldur fyrir Meistaradeildina. Ég hef ekki verið þekktur sem liprasti hornamaður í heimi en ég skoraði samt tvö mörk úr horninu," sagði Arnór í samtali við Fréttablaðið. Hann missti algjörlega af undirbúningi Magdeburg fyrir leiktíðina þar sem hann var upptekinn með íslenska U21 árs landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Ungverjalandi. Þar sem samkeppnin í liðinu er hörð hefur Arnór þurft að verma varamannabekkinn í haust og stundum þurft að horfa á leikina úr stúkunni. "Mér var auðvitað tjáð að ég sé framtíðar leikmaður. Ég vil samt sem áður láta að mér kveða þótt ég sé hálfgerð varaskeifa eins og er og þess vegna var gott að fá tækifærið gegn Wilhelmshavener og sýna þeim hvað ég get. Sigfús spilaði einnig mjög vel í vörninni en hann tekur minni þátt í sóknarleiknum en skoraði samt þrjú mörk," sagði Arnór. Alfreð Gíslason sagði við Fréttablaðið á dögunum að þetta yrði líklega hans síðasta tímabil sem þjálfari Magdeburg. "Það kemur okkur ekkert við hvað Alfreð gerir. Við ræðum þetta ekkert innan liðsins. Alfreð nýtur mikillar virðingar og hann sinnir vinnu sinni alveg hundrað present," sagði Arnór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×