Sport

Eddy Curry til New York Knicks

Miðherjinn Eddy Curry, sem leikið hefur með Chicago Bulls síðustu fjögur ár, var í nótt skipt til New York Knicks, eftir að hann hafði neitað að fara í DNA próf hjá Bulls vegna hjartagalla. Antonio Davis fer einnig til Knicks, en í staðin fær Chicago til sín þá Tim Thomas, Michael Sweetney og Jermaine Jackson. Búist er við að skiptin gangi formlega í gegn í kvöld, en málið hefur verið hið undarlegasta. Chicago Bulls hafa lengi verið að reyna að semja við Curry, sem greindist með hjartagalla í vor. Áður en hann greindist, átti hann von á að fá stóran langtímasamning við félagið, en ekkert slíkt kom til greina eftir að í ljós kom að hann væri heilsutæpur. Félagið fór fram á að hann færi í DNA rannsókn hjá bestu læknum sem völ var á, til að skera endanlega úr um alvarleika málsins, en Curry neitaði því og því tóku forráðamenn New York þá ákvörðun að taka áhættu og næla í leikmanninn. John Paxon, framkvæmdastjóri Bulls, var afar óhress með niðurstöðu málsins og sagðist mjög vonsvikinn með ákvörðun Curry. "Í ljósi þess að menn hafa dottið niður dauðir á vellinum með hliðstæð heilsufarsvandamál, tók ég ekki í mál að hann spilaði meira fyrir okkur nema hann gengist undir bestu rannsóknir sem völ er á," sagði Paxon. Það sem er furðulegast í málinu er þó það, að Chicago hefur staðfest að það hafi boðið Curry 400.000 dollara á ári næstu 50 árin ef niðurstöðurnar úr DNA prófinu yrðu neikvæðar, en leikmaðurinn vildi ekki sætta sig við þá niðurstöðu mála og er nú farinn frá liðinu. "Ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til að gera rétt, þannig að ég verð bara að una þessari niðurstöðu," sagði Paxon á blaðamannafundinum og stóð upp og gekk út, greinilega ósáttur við niðurstöðuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×