Sport

Hörkurimmur UMFG og UMFN

Njarðvíkingar unnu Reykjanesmótið í körfubolta á dögunum en liðið vann alla sex leiki sína í mótinu. Það gat þó varla munað minna í leikjunum gegn Grindvíkingum en Njarðvík vann þá tvo leiki með samtals þremur stigum, þann fyrri á heimavelli með tveimur stigum í framlengdum leik og þann seinni með einu stigi í Grindavík á miðvikudagskvöldið. Leikurinn í Grindavík var sögulegur því þetta var fyrsti opinberi leikurinn sem er spilaður á parketti í húsinu en gamla dúknum var skipt út í sumar.Jeb Ivey, bandaríski bakvörðurinn í liði Njarðvíkur, spilað stórt hlutverk í að landa þessum tveimur sigrum. Hann tryggði framlengingu í fyrri leiknum og skoraði síðan körfu og fékk víti að auki sem hann nýtti á lykilaugnabliki í framlengingunni. Ivey skoraði síðan sigurkörfuna í seinni leiknum fjórum sekúndum fyrir leikslok og var samtals með 54 stig og 10 stoðsendingar í þessum tveimur leikjum. Páll Axel Vilbergsson var atkvæðamestur Grindvíkinga í báðum leikjunum, skoraði 26 stig í fyrri leiknum og 28 stig í þeim síðari, en Damon Bailey var með 23 stig að meðaltali í þessum tveimur leikjum.Njarðvíkingar hafa lokið sínum leikjum í Reykjanesmótinu en Keflavík og Grindavík koma til með að bítast um annað sætið. Liðin mætast í kvöld klukkan 19.15 á nýja parketinu í Grindavík. Keflavík vann fyrri leikinn með einu stigi í Keflavík á dögunum þar sem Arnar Freyr Jónsson tryggði sínum mönnum sigurinn í lokin en sigurvegari kvöldsins hreppir silfurverðlaunin á mótinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×