Sport

Grikkir í undanúrslitin

Grikkir unnu góðan sigur á Rússum 66-61 í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar í körfuknattleik sem fram fer í Serbíu um þessar mundir. Síðar í kvöld mætast Litháen og Frakkland í síðari leik dagsins, en átta liða úrslitin klárast á morgun. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1997 sem Grikkir komast í undanúrslit keppninnar. Það var varamaðurinn Theodoros Papaloukas sem stal senunni hjá gríska liðinu og varð stigahæsti leikmaður vallarins með 23 stig. Andrei Kirilenko, leikmaður Utah Jazz, var lang atkvæðamestur hjá Rússum með 20 stig og 16 fráköst, en þrátt fyrir að hafa komist í 13-2 í byrjun leiks, nægði það liðinu ekki. "Þetta var fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar hjá okkur, en hún er það sem fleytir þessu liði svona langt," sagði Papaloukas. "Mér er sama hvort ég skora 30 stig eða ekker stig, ef við vinnum er ég sáttur," sagði hann. Sigurinn þýðir að Grikkir hafa tryggt sér farseðilinn á HM sem verður haldið í Japan á næsta ári, en Papaloukas var þó ekki í alla staði ánægður með það. "Jú, við erum komnir á HM og það er auðvitað frábært, en ég er sumpart ekkert rosalega spenntur fyrir því, af því þá þurfum við að fljúga þangað og ég er mjög flughræddur," sagði hetja Grikkja eftir sigurinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×