Sport

Fram lagði ÍBV í framlengingu

Framarar unnu góðan sigur á Eyjamönnum í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á Laugardalsvellinum í gærkvöldi. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað, en æsispennandi engu að síður og úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu. Eftir jafnar upphafsmínútur tóku Framarar völdin. Eyjamenn áttu fyrsta færið þegar Ian Jeffs skaut í stöng á 8. mínútu en annars var leikurinn tíðindalítill og um leið tilþrifalítill. Frömurum tókst af og til að ná góðum fyrirgjöfum gegn fjölmennri varnarsveit Eyjamanna. Það skilaði skalla í stöng frá Ríkharði og skömmu síðar fékk Ríkharður boltann í teignum, lagði hann inn á Andra Fannar sem skoraði af stuttu færi. Framarar voru sem fyrr sterkari aðilinn í seinni hálfleik sem var jafnvel enn tilþrifaminni en sá fyrri. Þau örfáu færi sem litu dagsins ljós voru Framara og Eyjamenn tóku ekki mikla áhættu og leikurinn fjaraði út. Þegar ekkert virtist vera eftir nema lokaflautið kom Andrew Sam og skallaði boltann í netið. Liðin skiptust á um að sækja í framlenginunni og eina markið kom úr vítaspyrnu Ríkharðar Daðasonar eftir að brotið var á Ómari Hákonarsyni. Úrslitin sanngjörn eftir að Framarar höfðu verið sterkari aðilinn í venjulegum leiktíma. Framarar urðu fyrir áfalli þegar Kim Nörholt varð fyrir meiðslum undir lok fyrri hálfleiks og var fluttur á sjúkrahús líklega með slitna hásin en hann og félagi hans Hans Mathiesen voru einna atkvæðamestir í liði Fram á meðan þeirra naut við. Maður leiksins: Ríkharður Daðason, Fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×