Sport

Saunders mun taka við Pistons

Flip Saunders mun verða næsti þjálfari Detroit Pistons, ef marka má nýjustu fréttir frá Bandaríkjunum, en Pistons hafa sem kunnugt er komist að samkomulagi við Larry Brown um að hætta og hafa gert við hann starfslokasamning. Saunders verður líklega kynntur formlega sem aðalþjálfari liðsins á morgun, en menn voru fljótir að leggja saman tvo og tvo þegar hann hafnaði tilboði Milwaukee Bucks um að taka við liðinu á dögunum, því það þótti gefa til kynna að hann væri í sigtinu hjá Pistons. Saunders var áður á mála hjá Minnesota Timberwolves í nokkur ár, þar sem hann þótti ná ágætum árangri. Hvað Larry Brown varðar, telja spekingar vestanhafs líklegt að hann verði næsti þjálfari New York Knicks. Nokkrar hræringar hafa verið á leikmannamarkaðnum í NBA á síðustu dögum og þar á meðal má nefna að framherjinn Donyell Marshall hefur gengið í raðir Cleveland Cavaliers frá Toronto, Washington Wizards lokkuðu til sín bakvörðinn Antonio Daniels frá Seattle Supersonics og þá hafa Philadelphia 76ers samið við þá Kyle Korver og Willie Green um að vera áfram hjá félaginu. Þeir samningar milli leikmanna og liða sem farið hafa fram undanfarið eru allir aðeins munnlegir, en á föstudaginn verður loks heimilt að ganga formlega frá leikmannaskiptum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×