Sport

Ronaldo hættir eftir HM 2006

Brasilíski framherjinn Ronaldo ætlar að hætta að spila með brasilíska landsliðinu eftir HM í Þýskalandi sem fram fer á næsta ári. Ronaldo ætlar að klára samninginn sinn við Real Madrid og leggja síðan knattspyrnuskóna á hilluna vorið 2009. "Þetta verður fjórða Heimsmeistarakeppnin mín og ég tel mig þurfa að gefa yngri leikmönnum sín tækifæri," sagði hinn 28 ára gamli framherji sem varð heimsmeistari með Brasilíu 1994 og 2002 og í öðru sæti í Frakklandi 1998. Ronaldo hefur skorað 56 mörk fyrir Brasiíu einu meira en Romario en hann á enn eftir að skora 19 mörk til þess að jafna Pele og nær því örugglega ekki spili hann aðeins í eitt ár til viðbótar. "Ég á 4 ár eftir af samningi mínum við Real Madrid og eftir að hann rennur út þá legg ég skóna á hilluna," sagði Ronaldo sem þá verður aðeins 32 ára gamall sem þykir ekki mikið í dag. Ronaldo hefur skorað 12 mörk í úrslitakeppni HM , fjögur mörk 1998 og átta mörk 2002 í Japan og Kóreu en þá varð hann markahæsti leikmaður keppninnar. Ronaldo er jafn landa sínum Pele á listanum yfir þá sem hafa skorað flest mörk í lokakeppninni og vantar þrjú mörk til viðbótar til þess að slá met Þjóðverjans Gerd Muller sem skoraði 14 mörk á árunum 1970 til 1974.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×