Sport

Fyrrum KR-ingur æfir hjá Lakers

Körfuknattleiksmaðurinn Aaron Harper, sem lék með KR-ingum í Intersportdeildinni eftir áramót, er nú staddur í æfingabúðum NBA stórveldisins Los Angeles Lakers. Harper fluttist til Venesúela eftir að Íslandsmótinu lauk hér á landi í vor til að spila með Panteras de Miranda. Óhætt er að segja að Harper hafi staðið sig vel hjá liðinu síðan því hann var fyrir skömmu valinn verðmætasti leikmaðurinn (MVP) í deildinni. Heimasíða KR greindi frá þessu síðdegis. Þetta vakti áhuga njósnara Phil Jackson og félaga hjá Lakers og mun Harper æfa ásamt fjölda annarra leikmanna sem Lakers hefur valið til að skoða í sumar. Harper skoraði 24.5 stig í leik með Panteras í deildarkeppninni, tók 4.5 fráköst, stal 3.5 boltum og gaf 2.3 stoðsendingar í leik. Þrisvar sinnum var hann valinn leikmaður vikunnar og nú í gær var tilkynnt að hann hefði verið valinn verðmætasti leikmaðurinn. Í 11 leikjum með KR í Intersportdeildinni skoraði Harper 26.4 stig að meðaltali, tók 6.6 fráköst, gaf 5.7 stoðsendingar og stal 2.6 boltum í leik. Í þremur leikjum gegn Snæfell skoraði hann 30 stig í leik, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Harper gaf til kynna eftir síðasta keppnistímabil að hann væri til í að koma aftur til KR næsta haust en KR-ingar telja líkurnar á því vera hverfandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×