Sport

Með tvöfalt hærri laun en Woudstra

Jakob Örn Sigurðarson, sem hefur gert það gott með háskólaliðinu sínu Birmingham Southern undanfarin ár, hefur samið við þýska úrvalsdeildarliðið BayerGiants Leverkusen um að leika með því næsta vetur. Að sögn umboðsmanns Jakobs, sem er faðir hans Sigurður Hjörleifsson, voru mörg lið í Evrópu á höttunum eftir stráknum. Lið frá Hollandi, Belgíu og Spáni höfðu sett sig í samband við Jakob og lýst yfir áhuga á að fá hann í sínar raðir. Jakob er fyrsti leikmaðurinn sem liðið fær til sín eftir miklar breytingar sem gerðar voru í kjölfar óviðunandi gengis á síðasta tímabili og er liðið stórhuga fyrir komandi tímabil, enda er Leverkusen lið með mikla sigurhefð. Þegar Fréttablaðið náði tali af Sigurði í gær var hann mjög ánægður með samninginn sem hann nældi í fyrir Jakob og sagði að samningur hans væri mjög ásættanlegur og nokkuð hár miðað við fyrsta atvinnumannasamning.  „Jakob fékk mjög góðan samning og er til að mynda með um helmingi hærri laun en Bandaríkjamaðurinn Brandon Woudstra sem verður í þessu liði með honum," sagði Sigurður, en Woudstra þessi lék sem kunnugt er með Njarðvíkingum tímabilið 2003-04.  „Margir furðuðu sig á því af hverju Leverkusen fékk sér ekki bara Bandaríkjamann, en þeir eru tiltölulega ódýrir á miðað við þá evrópsku, en þeir vildu aðeins fá Jakob og engan annan," sagði hinn seigi samningamaður Sigurður að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×