Sport

Helgi Jónas verður með

Körfuknattleiksdeild Grindvíkinga hefur ekki setið auðum höndum í sumarfríinu og nú er að verða komin mynd á hóp liðsins fyrir næsta vetur. Friðrik Ingi Rúnarsson mun stýra liðinu á næstu leiktíð, þeir fengu Pál Kristinsson til liðs við sig frá Njarðvík og hafa nú samið við skyttuna Guðlaug Eyjólfsson um að snúa aftur til liðsins eftir hálfs árs fjarveru. Þá eru þeir í viðræðum við Berg Hinriksson, sem hefur verið í námi erlendis. Þær gleðifréttir bárust svo nýverið að Helgi Jónas Guðfinnsson stefni á að geta verið með næsta vetur. Helgi hefur átt við þrálát meiðsli að stríða í baki undanfarin tvö ár og það hefur háð Grindvíkingum nokkuð mikið í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. „Ég stefni á að vera með allan tímann næsta vetur, ef heilsan leyfir," sagði Helgi Jónas í samtali við Fréttablaðið í gær, en hann er búinn að vera á kafi í vinnu undanfarið við að opna líkamsræktarstöð í Grindavík. „Ég er að fara til sérfræðings fljótlega þar sem farið verður yfir hvað er hægt að gera í sambandi við bakið á mér og ég ætla mér að vera með næsta vetur," sagði Helgi Jónas.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×