Sport

18 ára landsliðið vann A-liðið

Fjögur íslensk unglingalandslið eru á leið á Norðurlandamót unglinga í körfubolta í næstu viku og hafa liðin fjögur verið að leggja lokahönd á undirbúning sinn. Meðal þessa hafa verið æfingaleikir og 18 ára landslið kvenna gerði sér þannig lítið fyrir og vann A-landsliðið í æfingaleik í Keflavík í gær, 68-65. Reyndar eru nokkrir af leikmönnum 18 ára landsliðsins þegar búnir að vinna sér sæti í A-liðinu en að öðru leyti var þarna samankomið A-landslið kvenna sem er á leiðinni á Smáþjóðaleikana um næstu mánaðamót. 18 ára landsliðið hafði forystuna stærsta hluta leiksins og náði meðal annars 12 stiga forskoti í lok fyrri hálfleiks en staðan í hálfleik var 33-40 fyrir 18 ára liðið. A-landsliðið tók sig á í seinni hálfleik og komst meðal annars yfir í 47-46 en þá svöruðu ungu stelpurnar með 12 stigum í röð og unnu að lokum þriggja stiga sigur eftir spennandi lokamínútur. Helena Sverrisdóttir átti mjög góðan leik hjá 18 ára liðinu, skoraði 29 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 13 stig og Bryndís Guðmundsdóttir var með 10 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá A-liðinu voru þær Signý Hermannsdóttir og Birna Valgarðsdóttir með 14 stig hvor og Hildur Sigurðardóttir skoraði 13 stig. Signý tók auk þess 11 fráköst og Hildur var með 10 fráköst (6 í sókn) og 4 stoðsendingar. 18 ára landsliðið er að stórum hluta skipað stúlkum sem urðu Norðurlandameistarar með 16 ára landsliðinu á síðasta ári en þjálfari þess er Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hauka og þjálfari ársins í 1. deild kvenna á síðasta tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×